Marklýsing námsins er unnin út frá marklýsingu Royal College of Anaesthetists og nær eingöngu til þess hluta sem kallaður er grunnhluti kjarnanáms (e. basic level of core training) og auk þess valinna atriða úr almennum hluta og gjörgæsluhluta marklýsingarinnar. Kjarnanám í svæfinga- og gjörgæslulækningum er þannig fyrsti hluti sérnáms og er að jafnaði tveggja ára nám.
Náminu er skipt upp í tvö ár þannig að eitt ár fer fram á svæfinga- og gjörgæsludeild á Hringbraut og eitt ár í Fossvogi. Ávallt er unnið skv eftirliti og á ábyrgð svæfinga- og gjörgæslulæknis, þótt nærvera sérfræðilæknis sé breytileg í samræmi við aukna færni, getu og sjálfstæði sérnámslæknis á námstímanum. Það er þó alltaf unnið skv samkomulagi sérnámslæknis og sérfræðilæknis hverju sinni.
Marklýsingin er leiðbeinandi regluverk þar sem saman vefast ólíkir þættir sérnámsins, s.s. verklegar æfingar, fræðilegt nám, ígrundun, samskipti og auðvitað sanngirni og heilindi sem læknisstarfið krefst.
Hverjum sérnámslækni er úthlutaður handleiðari og skulu þessir aðilar eiga í nánu samstarfi þótt skipulag námsins og drifkraftur komi frá sérnámslækninum sjálfum.
Klínísk þjálfun fer fram jafnt og þétt allan tímann en skipulag hennar kemur skýrt fram í námsþáttum (e. units of training). Work place based assessments (WPBA eða æfingar) eru það sem lagt skal til grundvallar samþykkis á lokum hvers námsþáttar og er miðað við eitt WPBA af hverri tegund fyrir hvern þátt; DOPS, ACEX og CBD. Yfirlit þessara þátta má finna á síðunni.
Fræðileg þekking styrkist auðvitað í gegnum klíníska þjálfun en er námshluti sem gefa þarf sérstakan tíma og athygli og er undir hverjum sérnámslækni komið að sinna. Fræðilegir námsþættir eru tilteknir í marklýsingu en til að ljúka þeim (og ljúka tveggja ára kjarnanámi) verður að sýna fram á þekkingu sambærilega við þá sem hlýst af fullnaðareinkunn úr EDAIC prófinu (sem aftur er sambærilegt við FRCA próf í UK skv RCoA). EDAIC er haldið ár hvert í Reykjavík og býðst sérnámslæknum að þreyta æfingapróf (OnLine Assessment – OLA) á hverju ári. Fræðsla fer fram með ýmsu móti á deildunum, s.s. með föstudagsfræðslu sérfræðinga og reyndra sérnámslækna, miðvikudagsfundum með KeyWords og greina- og fræðslukynningum á morgunfundum, auk ýmissa námskeiða sem sérnámslæknum býðst að sækja um.
Samskipti, færni í notkun úrræða og skilningur á skipulagi í vinnuumhverfi Landspítala þjálfast daglega í klínískum störfum og eru einhver mikilvægasti þátturinn í þjálfun sérnámslækna í hvívetna. Þessum þáttum er lýst í marklýsingu (Annex A) og lagt er mat á færni og framvindu með ýmsum leiðum, s.s. Multi-Source Feedback, endurgjöf samstarfsfólk beint til SN læknis eða handleiðara, Consultant Source Feedback, þverfaglegri hermikennslu o.fl.
Gæða- og umbótastarf er vel skilgreindur hluti sérnámsins og er þátttaka í verkefni sem snýr að bættum gæðum og stöðugum umbótum skylda á námstímanum. SN læknar sækja námskeið Gæðadeildar LSH í aðferðafræði áður en slík verkefni eru unnin.