Að búa til færslur á WordPress!

Velkomin(n) á kennslusíðuna!

Kerfið sem við notum til að búa til svaefing.org vefinn heitir WordPress. Þetta er mikið notað kerfi og það er til mikið magn af upplýsingum um það svo það er auðvelt að „gúggla“ ef maður lendir í vandræðum með eitthvað eða kann ekki eitthvað. Það hefur líka þann kost að vera almennt mjög einfalt í notkun sem hjálpar auðvitað mikið.

Til að koma fólki af stað ákvað ég samt að búa til þessa síðu með einföldum myndskeiðum sem sýna hvernig við vinnum með þetta kerfi til að gera einfaldar nýjar færslur. Best er að spila þessi myndskeið í fullri stærð nema auðvitað þið séuð með haukfrán augu sem greina pítulítinn texta án vandræða…

Við hin notum full screen!

Fyrst kemur myndband sem sýnir það hvernig við loggum okkur inn og hvernig skjáborðið okkar ætti að líta út ef við höfum fengið leyfi til að verða höfundar að síðunni.

Innskráning og útlit fyrir höfunda

Næst kemur myndskeið sem útskýrir hugtakið „Block“. Block er mjög mikilvægt hugtak að átta sig á þegar verið er að vinna með WordPress. Auðveldast er að skilja hugtakið með því að muna að ein Blokk er ein eining af hverju sem er í WordPress. Myndskeiðið skýrir þetta vonandi betur.

Unnið með „blokkir“

Næst kemur svo myndskeið sem sýnir það hvernig við búum til eina einfalda færslu í kerfinu. Allt frá því þegar við höfum valið „+Nýtt“ og svo „Færsla“ undir því sem ætti að vera efst á síðunni hjá ykkur – sjá fyrsta myndbandið ef þetta er óljóst.

Ný færsla gerð

Aðeins til að skýra flokkana sem við notum:

  • Fréttir frá deildum eru bara það, fréttir frá deildum. Hér setjum við hluti eins og þegar nýjir sérnámslæknar byrja, einhver tækjakynning á sér stað eða eitthvað slíkt.
  • Fréttir sérnáms. Þarna setjum við hluti eins og til dæmis tilkynningar um breytingar á föstudagsfræðslu eða bara hvað sem snýr að sérnáminu. Athugið að það má alltaf velja fleiri en einn flokk, til dæmis gæti átt við að setja frétt um nýja sérnámslækna bæði í „Fréttir frá deildum“ flokkinn en líka í „Fréttir sérnáms“ flokkinn.
  • Fræðsluefni morgunfunda. Þetta er flokkurinn sem þið lang mest munið nota. Þarna koma fréttir um greinarkynningar eða annað sem læknar deildarinnar, hvort heldur eru sérnámslæknar eða sérfræðingar kynna á morgunfundum.
  • Sérnámsfræðsla. Þetta er kannski hálf óskýrt en þessi flokkur á við um allt sem tengist sérnámsfræðslunni sem fram fer á föstudögum. Kannski ég breyti þessu heiti bara.
  • Þemadagar. Hér fer allt sem tengist þemadögum. Það er nú ekki mikið þarna enn sem komið er en það stendur nú allt til bóta er það ekki?
  • Ýmislegt. Ruslakista. Eiga ekki allir ruslaskúffu í eldhúsinu fyrir allt draslið sem við vitum ekki hvað við eigum að gera við en verðum samt að eiga?
  • Óflokkað. Þarna fara færslur ef það gleymist að flokka þær, þetta ætti helst að vera tómt.

Tilgangurinn með flokkunum er sá að hægt er að fara inn í hvern flokk fyrir sig og sjá það efni sem þar er að finna. Þannig er hægt að fara beint inn í „Fræðsluefni morgunfunda“ flokkinn til að sjá hvort eitthvað nýtt sé þar að finna án þess að þurfa að sjá einhverjar færslur um nýja deildarlækna, tilkynningar um föstudagsfundi eða neitt annað.

Það var eitt mjög einfalt og mikilvægt sem ég gleymdi að sýna í síðasta myndskeiði svo ég gerði bara eitt mjög stutt nýtt til að sýna hvernig maður „linkar“ úr texta á einfaldan hátt.

Tenglar í texta

Að lokum er svo ein færsla í viðbót. Hún sýnir okkur tvennt sem við þurfum að kunna, annars vegar er það „Preview“ takkinn og hinsvegar er það „More“ blokkin. Sjón er sögu ríkari.

Preview og „More“ blokkin.

Það er fullt til af kennsluefni fyrir WordPress og auðvelt að gúgla sig áfram. Það er líka til mikið á Youtube og hér er til dæmis tengill á eitt youtube myndskeið sem gæti verið hjálplegt: Writing your first blog post

Ef eitthvað er óljóst er svo alltaf hægt að hringja í vin!

Takk fyrir að nenna að skoða þetta og takk fyrir að taka þátt í að gera vefinn lifandi og áhugaverðan.

//Sigurjón, september 2022